Hagnaður eignarhaldsfélagsins Klakka ehf. var um 6 milljarðar íslenskra króna á árinu 2014. Árið áður hagnaðist félagið um 8,5 milljarða og er þetta því lækkun hagnaðar milli ára.

Heildareignir félagsins voru um 47 milljarðar og er óbreytt milli ára. Eigið fé félagsins var 20 milljarðar króna og hækkar um þrjá milljarða milli ára.

Klakki seldi allan eignarhlut sinn í Vátryggingarfélagi Íslands hf. (VÍS) á árinu, 8% hlut í júní 2014, 8% þann 13. október 2014 og 15% hlut þann 22. október. Eftir söluna á Klakki engin hlutabréf í VÍS.

Hluthafar í Klakka voru 178 í lok árs, þar af eiga þrír hluthafar meira en 10%. Arion banki á 31,8%, Kaupþing banki á 17,6% og Burlington Loan Management LTD. á 13,3% hlut í félaginu.

Félagið ætlar ekki að greiða arð til eigenda.

Klakki ehf er eignarhaldsfélag sem er að mestu í eigu íslenskra og erlendra fjármálastofnana og lífeyrissjóða, en á meðal helstu eigna félagsins eru Lýsing hf. og aðrar smærri eignir. Klakki hét áður Exista en hluthafar breyttu nafninu í árið 2011 til að undirstrika nýtt eignarhald og hlutverk félagsins.