Klakki (áður Exista) seldur 70% af eignarhlut sínum í tryggingafélaginu VÍS fyrir 14,3 milljarða króna á genginu 7,95-9,20 krónur á hlut. Mikil umframeftirspurn var eftir hlutabréfum í útboðinu sem lauk í gær en tæplega 5.000 fjárfestar óskuðu eftir að kaupa hlutabréf í VÍS fyrir samtals um 150 milljarða króna.

Fram kemur í tilkynningu frá VÍS að í ljósi eftirspurnar ákvað Klakki að nýta heimild sína til stækkunar útboðsins og nemur því endanleg stærð þess 70% af útgefnum hlutum í VÍS. Söluandvirði útboðsins er 14,3 milljarðar króna. Tilboðum á genginu 7,95-9,20 krónur á hlut var tekið við úthlutun, en endanlegt útboðsgengi í tilboðsbókum A og B er 7,95 krónur á hlut og í tilboðsbók C er meðalgengi 8,52 krónur á hlut.

Um 14,55% af útgefnum hlutum VÍS verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í tilboðsbók A fyrir kaupum að andvirði 100 þúsund krónum til 50 milljónum króna og hverjum aðila úthlutað hlutabréfum í samræmi við það. Um 30,70% af útgefnum hlutum VÍS verður úthlutað til fjárfesta sem skráðu sig í tilboðsbók B fyrir kaupum að andvirði 50 milljónum króna eða meira og verður hverjum aðila úthlutað sem nemur 5% af gildri áskrift sinni. Fjárfestum sem skráðu sig í tilboðsbók C verður úthlutað 24,75% af útgefnum hlutum VÍS fyrir andvirði um 5,3 milljörðum króna.

Gert er ráð fyrir að viðskipti með hluti í VÍS geti hafist á Aðalmarkaði Kauphallar Íslands miðvikudaginn 24. apríl næstkomandi.