Larry Flynt, útgefandi tímaritsins Hustler, og Joe Francis, framleiðandi myndbandanna „Girls Gone Wild“, hafa óskað eftir 5 milljarða dala ríkisaðstoð. Þeir segja að klámiðnaðurinn sé meðal þeirra atvinnugreina sem hafi orðið fyrir höggi í kreppunni, að því er fram kemur í DealBook NYTimes.

„Með allar þessar efnahagslegu hörmungar og fólk að tapa öllum þessum peningum er kynlíf það síðasta sem það hugsar um,“ er haft eftir Flynt úr yfirlýsingu. „Það er kominn tími til að þingið endurveki áhuga á kynlífi í Bandaríkjunum. Eina leiðin til að gera þetta er að styðja við klámiðnaðinn og það án tafar.“

Haft er eftir Flynt og Francis að sala og leiga á DVD-diskum hafi fallið um 22% á síðasta ári eftir að áhorfendur hafi leitað inn á netið eftir slíku efni.

Bankar óttast neikvæða athygli

Á DealBook segir einnig frá því að Friendfinder Networks, móðurfélag tímaritsins Penthouse, eigi erfitt með að ná saman fjárfestingarbönkum vegna 460 milljóna dala frumútboðs. Þetta mun þó ekki vera af fjárhagslegum ástæðum, en DealBook hefur eftir Breakingviews að helstu bankar hafi áhyggjur af því að fá enn frekari neikvæða athygli en orðið er vegna milljarða dala ríkisaðstoðar.