Bresk stjórnvöld samþykktu í fyrradag í fyrsta sinn að sýklalyf sem fólk gleypir megi selja án lyfseðils, sem þykir stórt skref í þá veru að þenja út mörk svokallaðrar sjálfslyfjunar, þ.e. þegar fólk kaupir sér lyf án íhlutunar læknis. Actavis hefur mikla fjárhagslega hagsmuni af þessari leyfisveitingu þar sem það framleiðir og selur lyfið Clamelle, sem notað er við meðhöndlun klamydíu, eins algengasta kynsjúkdóms heims, en það er sérstaklega tiltekið í þessu samhengi.

Lyfið er ætlað fólki sem hefur reynst sýkt af sjúkdómnum við prófun en sýnir ekki ytri einkenni hans. Samkvæmt nýju reglunum munu einstaklingar sem þetta á við um, sextán ára og eldri, og fólk sem þeir hafa átt samræði við, geta keypt lyf á borð við Clamelle án lyfseðils. Um það bil 70% þeirra sem fá klamydíu eru einkennalausir en eiga á hættu alvarlega fylgikvilla ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður, þar á meðal ófrjósemi og utanlegsfóstur.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .