Viðbrögð við sigri Trump hafa verið mjög mismunandi um allan heim, allt frá því að vera fagnað með standandi lófaklappi til þess að vera líkt við heimsendi.

Þegar fréttist af því í rússnesku Dúmunni, þingi landsins, að Donald Trump hefði sigrað Hillary Clinton í forsetakosningunum stóð þingheimur upp og klappaði. Jafnframt hringdi Pútín í Trump til að óska honum til hamingju með sigurinn.

„Eins og ég hef oftsinnis sagt, þá er það ekki okkar sök að samskipti Rússlands og Bandaríkjanna séu slæm. Rússland vill og er tilbúið til að koma aftur á fullkomlega eðlilegum samskiptum við Bandaríkin,“ sagði Pútín .

Frakkar og þjóðverjar tala um enda heimsins og hörmungar

Franska dagblaðið Libération nýtti framhliðina til að fjalla um að forsetakosningarnar hefðu verið þær dýrustu í sögunni, eða sem samsvarar 6,8 milljörðum dala, eða sem nemur 764 milljörðum íslenskra króna. Þetta vinstrisinnaða dagblað kom jafnframt með fyrirsögnina Trumpocalypse.

Þýska dagblaðið Die Welt tísti tilvísun í heimsfrægt lag hljómsveitarinnar R.E.M, og sagði þetta endi veraldarinnar eins og við þekkjum hana meðan þýska vikuritið Der Spiegel kallaði sigurinn stjórnmálalegar hörmungar. Í Japan hins vegar voru menn mun afslappaðri og sögðu kosningabaráttu hans hafa verið magnaða.

Spyrja hvort stjörnurnar sem hótuðu landflutningum muni standa við orð sín

Blaðið Independent í Bretlandi sagði að hvítir verkamenn hefðu tryggt Trump sigurinn, meðan Daily Mirror sýndi á forsíðu allar þær stjörnur sem lofað höfðu að yfirgefa landið ef Trump myndi sigra meðan Mirror tísti að fólk væri þegar farið að krefjast framboðs Michelle Obama árið 2020.

Á Ítalíu lýsti dagblaðið La Stampa sigri Trump sem skori áfalli fyrir hlutabréfamarkaði út um allan heim meðan spænska blaðið ABC tísti að poppúlisminn væri kominn í Hvíta húsið. Jafnframt tísti það ummælum eins af bloggurum á síðu sinni að kosningarnar sýndu fram á áður óséða vanþekkingu hluta bandarísku þjóðarinnar.

Stærsti sigur gyðingaandúðar síðan 1941

Kristilega dagblaðið í Danmörku kom svo með í undirfyrirsögn að Bandaríkjamenn væru búnir að kjósa óreiðukandídat sem muni eiga í erfiðleikum með að sameina þjóðina.

Haaretz dagblaðið í Ísrael sagði í tísti að sigur Trump væri stærsti sigur andsemítista í Bandaríkjunum síðan 1941. Í Mexíkó sagði El Universal tímaritið að nú taki við óvissa á heimsmælikvarða.