Framkvæmdastjóri Thorsil vonast til þess að fjármögnun verkefnisins klárist á næstu vikum. Thorsil hyggst reisa 54 þúsund tonna kísilmálverksmiðju í Helguvík. ESA hefur komist að niðurstöðu að raforkusamningur við Landsvirkjun feli ekki í sér ríkisaðstoð.
Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þessa dagana standi yfir fundir við fjárfesta um fjármögnun verksmiðjunnar í Helguvík.

„Við erum á fullum spretti við að loka fjármögnuninni," segir Hákon. Áætlaður kostnaður við byggingu 54 þúsund tonna verksmiðju er 275 milljónir dollara eða 33,8 milljarðar króna. „Erfitt er að segja hvenær við nákvæmlega klárum þetta en við vonumst eftir því að það verði á næstu vikum.

Eftir að fjármögnun lýkur þá hefst öll verkfræði- og útboðsvinna. Framkvæmdir hjá okkur hefjast því ekki fyrr en næsta vetur. Helguvíkurhöfn á að afhenta okkur lóðina í tilteknu ástandi og verður jarðvinnan fyrsta skrefið. Þegar við fáum lóðina afhenta getur raunveruleg uppbygging hafist. Eins og staðan er núna þá gerum við ráð fyrir að opna verksmiðjuna á þriðja ársfjórðungi 2018."

Breytingar á eignarhaldi

Fyrir tæpum mánuði birti atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, sem er það ráðuneyti sem hefur fjárfestingarsamningana á sinni könnu, tilkynningu þar sem greint var frá því að breytingar hefðu verið gerðar á eignarhaldi Thorsil. Sagt var að hluthafar í Thorsil ehf. hefðu framselt hluti sína í félaginu til félagsins Thorsil holding hf. Í fjárfestingarsamningum er ákvæði sem takmarkar meiriháttar framsal á eignarhluta félagsins við samþykki ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin fundaði um málið og í tilkynningunni segir að hún hafi "fyrir sitt leyti samþykkt umrædda breytingu á eignarhaldi Thorsil ehf".

Hákon segir að þessar eignarhaldsbreytingar hafi verið hluti af því að einfalda vinnuna.

„Þetta eru áfram sömu eigendur," segir Hákon. „Thorsil holding á öll hlutabréfin í Thorsil ehf. núna og þeir sem áttu Thorsil ehf. eiga þá öll hlutabréfin í Thorsil holding. Þetta er fyrst og fremst gert til að einfalda gerð lánasamninga."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .