Formaður Framsóknarflokksins segir markmiðið að ný ríkisstjórn taki við í lok vikunnar. Í frétt á vef mbl.is segir Sigurður Ingi Jóhansson að verið sé að leggja lokahönd á vinnuna við myndun nýrrar ríkisstjórnar. Markmiðið sé að kalla saman flokksráð Framsóknarflokksins um miðja vikuna.

Formennirnir hittist í dag líkt og þeir hafi gert undanfarna daga. Hann segir að ekki séu ákveðin erfið mál eftir heldur „komið þetta allt í einu“

Undir þetta tekur Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns farmboðs (VG), í frétt á vef RÚV og að staðan skýrist væntanlega í dag og á morgun. Ekki hafi verið gengið frá skiptingu ráðuneyta. Hún segir jafnframt að stjórnin sem mynduð yrði væri hvorki vinstri- né hægristjórn og því þurfi að leysa úr ýmsum málum með öðrum hætti en gert hafi verið hingað til.