*

miðvikudagur, 23. september 2020
Fólk 24. nóvember 2019 17:46

Klárað heilu og hálfu Járnkarlana

Birna Íris Jónsdóttir sem hefur tekið við sem rekstrarstjóri hjá Högum, stundar þríþraut að miklum kappi.

Höskuldur Marselíusarson
Nýr rekstrarstjóri upplýsingatækni og stafrænnar þróunar hjá Högum segir lykilatriðið í að klára þríþrautarkeppnina Járnkarlinn að hafa sterkar taugar, ekki megi gefast upp.
Eyþór Árnason

„Mitt hlutverk verður að greina tækifærin í því að veita betri þjónustu í smásölunni með stafrænum lausnum. Einnig að finna leiðir til að hagræða og samnýta tækniumhverfið fyrir öll félögin innan Haga, enda mjög fjölbreytt starfsemi sem fer fram hér, á sama tíma og við skoðum leiðir til að hvert félag geti haldið sinni sérstöðu,“ segir Birna Íris Jónsdóttir, nýr rekstrarstjóri upplýsingatækni og stafrænnar þróunar hjá Högum og dótturfélögum þess.

„Eftir að ég var í tölvunarfræði fór ég að vinna sem forritari og vann sem slíkur í nokkur ár, en svo þegar ég var hjá Betware fer ég inn í vörustýringu á happdrættislausnum fyrirtækisins. Hjá Landsbankanum fékk ég tækifæri til að reyna mig við stjórnun og stýrði ég hugbúnaðardeildinni þar og samhliða fór ég í MBA nám og bætti við mig stjórnunarnámi. Næst fór ég til Sjóvá þar sem ég stýrði öllum upplýsingatæknimálum félagsins.

Leið mín inn í tölvunarfræðina er kannski ekki sú algengasta en eftir stúdentsprófið fór ég í iðnhönnun í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Þar voru ýmis tækniþung námskeið bæði í kringum rafmagn og alls konar hugbúnað sem mér gekk mjög vel í og fann mig algerlega í og það var í framhaldi af því sem ég ákvað að fara í tölvunarfræði.“

Birna Íris á þrjú börn á aldrinum 20, 14 og 11 ára, og reynir hún að eyða sem mestum tíma utan vinnu með þeim auk þess að sinna krefjandi æfingum í þríþraut. „Ég æfi sund, hjólreiðar og hlaup hjá Þríþrautardeild Breiðabliks, og hef keppt og klárað tvo Járnkarla, fjóra hálfa Járnkarla og svo nokkrar styttri keppnir líka. Í svona keppnum er byrjað á að synda annaðhvort í sjó eða vatni 3,8 kílómetra, svo hjólað 180 kílómetra og loks hlaupið heilt maraþon, 42,2 kílómetra, allt í einni beit, það er ágætisþrekraun. Metið mitt er 11 klukkustundir og 13 mínútur,“ segir Birna Íris, en eins og gefur að skilja er þetta tímafrekt áhugamál.

„Í svona æfingar þarf að eyða miklum tíma, sitja lengi á hjólinu, hlaupa langar vegalengdir og synda lengi, þannig að taka þátt í svona stórum mótum fylgja miklar tilfinningar, því þá er komið að því að uppskera eftir allt erfiðið. Þetta er mikil og skemmtileg upplifun, ég fór á fyrstu stóru keppnina í Þýskalandi árið 2017 og svo aftur núna í október í Barcelona á Spáni, en þar voru einhverjir 3.800 keppendur.

Í þetta sinn var ég reyndar hálfslöpp og orkulaus og á tímabili í hlaupinu leið mér alveg skelfilega illa og langaði mikið að hætta, en sennilega helmingurinn af þessu er hugurinn, það þarf sterkan haus. Þá segir maður við sjálfan sig að harka af sér, ekki gefast upp, því þegar búið er að leggja svona mikið inn getur maður ekki farið að hætta.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.