Núna um helgina kom Breska þingið sama á laugardegi í fyrsta sinn í 37 ár. Tilefnið var nýr samningur um Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu), sem Boris Johnson forsætisráðherra náði við Sambandið í síðustu viku. Vonir forsætisráðherrans stóðu til þess að þingið tæki skýra afstöðu, af eða á, til samnings á þingfundi sínum núna um helgina en ekki varð honum kápan úr því klæðinu. BBC greinir frá .

Í stað þess að fjalla um samninginn krafðist þingið þess að forsætisráðherra sendi Evrópusambandinu beiðni um lengri frest takist ekki að afgreiða málið fyrir 31. október. Boris hefur lagt ríka áherslu á að Bretland muni yfirgefa Sambandið án samnings þann dag en krafa þingsins var lagalega bindandi og sendi því Boris frestbeiðnina nauðugur viljugur. Beiðnin barst Evrópusambandinu ásamt öðru bréfi frá forsætisráðherra Bretlands þar sem Boris sagði að væri mistök af hálfu Sambandsins ef fresturinn yrði samþykktur.

Brexit er aftur á dagskrá breska þingsins í dag og Boris mun gera aðra tilraun til að koma samningnum í gegn. Hann segir búið að tryggja málinu meirihluta en skv. BBC er um næfu þunnan meirihluta að ræða ef hann sé fyrir hendi á annað borð.

Ekki er víst að þingið kjósi um samninginn í dag því þingforsetanum er í vald sett að fresta fyrirtökunni á þeirri forsendu að þingið hafi ekki fengið nægan tíma til að kynna sér samninginn til hlítar. Reiknað er með að framhaldið ráðist seinnipartinn í dag þegar breska þingið kemur saman.