Verslunareigendurnir og hönnuðurnir Hugrún Dögg Árnadóttir og Magni Þorsteinsson hófu rekstur skóbúðarinnar Kron árið 2000. Síðan þá hefur reksturinn farið ört stækkandi og opnuðu þau fataverslunina Kronkron árið 2004. Haustið 2008 komu þau með eigin skólínu á markað undir nafninu Kron by KronKron og í sumar kom fyrsta fatalína þeirra á markað undir sama nafni. Hugrún lýsir hönnuninni sem klassískri og tímalausri eins og hlutlausa postulínið.

Markaðssetning erlendis gekk snilldarlega fyrir sig að Hugrúnar sögn og eru vörurnar nú í dreifingu í rúmlega 40 löndum um allan heim. Mikið af vörunum er í Evrópu og Asíu og nýlega fóru þær inn á Bandaríkjamarkað. Hugrún og Magni hafa fengið þrjá styrki frá Hönnunarsjóði Auroru til sýningarhalds erlendis, alls að upphæð 5,4 milljónir króna. Magni segir styrkina hafa verið mikilvæga til að geta farið út með línuna í upphafi þar sem mjög dýrt sé að vera á sölusýningum. „Hver styrkur nægir til greiðslu fyrir eina sýningu. Maður leigir t.d. 6 fermetra á 1-2 milljónir króna fyrir fjóra daga. Síðan þarf að fara út með 200 skópör þannig að það er gífurlegur kostnaður í kringum þetta,“ segir Hugrún. Að hennar sögn er nauðsynlegt að nýta sýningarplássið til hins ýtrasta og var það m.a. ein kveikjan sem ýtti þeim af stað í hönnun fatalínu enda margar búðir sem einungis eru fatabúðir. „Við ætluðum að gera fatalínuna tveimur árum síðar en ákváðum að drífa okkur í því.“

Það er ekki einungis dýrt að taka þátt í sýningum heldur er aðsóknin það mikil að oft er erfitt að komast inn á sýningarnar. Hugrún og Magni sýna alltaf í Mílanó á hverju tímabili og á tveimur stöðum í París og annað slagið í Kaupmannahöfn. Fyrir utan styrki úr Hönnunarsjóði Auroru hafa þau komið hönnun sinni sjálf í framkvæmd, engir aðrir fjárfestar koma að þessu. Þau sjá sjálf um allt söluferli, skipulagningu og markaðsmál. „Við höfum haft það að leiðarljósi að hafa litla sem enga yfirbyggingu hjá okkur og láta hlutina frekar gerast í réttum skrefum. Það þýðir að við erum búin að vinna allmörg störf sem auðvitað tekur á en gerir það að verkum að við höfum góða stjórn og sýn yfir allt saman hjá okkur,“ segir Hugrún.

Ítarlegra viðtal við Hugrúnu má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak undir liðnum tölublöð hér að ofan.