*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 10. janúar 2017 08:56

Klaufaskapur en ekki ásetningur

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir tafir á skýrslubirtingu merki um klaufaskap og slaka dómgreind.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar sem nú myndar stjórn með Sjálfstæðisflokki Bjarna Benediktssonar, sem enn er starfandi fjármálaráðherra, segir afar slæmt það sem hann kallar klúðrið í kringum birtingu skýrslu um aflandseyjar og skattaundanskot.

Í færslu á lokuðum hópi trúnaðarmanna Viðreisnar á Facebook segir hann um klaufaskap og lélega dómgreind frekar að ræða heldur en ásetning um feluleik.

Tekur hann þar einnig sérstaklega fram vegna þess að hann reikni með að fæstir hafi lesið skýrsluna að hún fjalli ekki um neina einstaklinga.

Í frétt Vísis um málið segir að fjórir nefndarmenn í Efnahags- og viðskiptanefnd þar sem Benedikt er formaður hafi óskað eftir fundi um málið og hafi hann þegar haft samband við varaformann um að boða til fundar hið snarasta. Fundurinn verður haldinn á fimmtudag.

Skýrslan var birt opinberlega á föstudag, en fullyrt hefur verið í fréttum RÚV að henni hafi verið skilað til ráðuneytisins 13. september og fjármálaráðherra hafi fengið kynningu á efni hennar 5. september.

Gagnrýnt hefur verið að hún hafi ekki verið birt fyrir kosningarnar 29. október síðastliðinn.