*

mánudagur, 24. febrúar 2020
Fjölmiðlapistlar 16. desember 2018 13:08

Klausturhreytur

Fjölmiðlarýnir Viðskiptablaðsins heldur áfram að fjalla um Klaustursmálið.

Andrés Magnússon
Haraldur Guðjónsson

Klausturmálin héldu áfram að malla í vikunni og aðrar ámóta fréttir svo sem líka, þó það verði varla sagt að neitt hafi skýrst til muna eða umræðan í kringum þau mál öll verið til mikils gagns eða líkleg til þess að leiða eitthvað til lykta. Þar er ekki við fjölmiðla eina að sakast, en ábyrgð þeirra er samt nokkur.

Stór hluti vandans er sá að þessar fréttir hafa í aðra röndina verið pólitískar og þá eiga sumir miðlar bágt með sig. En það er einmitt það, sem þeir verða að varast, heldur gæta vandaðra vinnubragða, hlutleysis og sanngirni.

***

Hið helsta, sem nýtt kom fram í Klausturmálinu, var hver það var sem hleraði þingmennina sex. Það var Bára Halldórsdóttir, sem í viðtali við Stundina síðastliðinn föstudag lýsti sér sem 42 ára konu, fatlaðri og hinsegin, sem kvaðst hafa blöskrað tal þingmannanna.

Almennt var þeirri opinberun vel tekið, þó margir hefðu áfram efasemdir um réttmæti þess að hlera samtöl fólks með þessum hætti. Það er enda ólöglegt, eins og hér var rakið í liðinni viku.

Af því tilefni var Bára boðuð til þinghalds fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur næstkomandi mánudag til þess að gera henni ljóst að hugsanlega verði höfðað mál gegn henni og að hún gæti þurft að grípa til varna. Það kom til vegna beiðni lögmanns þeirra fjögurra þingmanna Miðflokksins, sem sátu samdrykkjuna að Klaustri, en þeir hafa einnig óskað þess að Persónuvernd fjalli um málið.

Það voru ekki allir kátir með þetta, en eftir situr að Bára steig sjálf fram, svo hún getur ekki lengur notið mögulegrar verndar heimildamanns fjölmiðils og eins og áður segir er athæfið ólöglegt.

Nú er enginn öfundsverður af því að þurfa að fara fyrir dóm, sama hvernig háttar, en þó að mörgum þyki þetta ósanngjarnt gagnvart henni, þá er rétt að málið sé tekið fyrir af stjórnvöldum, bæði hjá Persónuvernd og fyrir dómstólum. Það varðar einfaldlega svo ríka hagsmuni almennings til næðis að það má ekki láta það liggja.

***

Það var hins vegar annarlegt að lesa frétt Stundarinnar um þennan anga málsins. Látum vera að Stundin telji aðförina að Báru ósvinnu og láti það óhikað koma fram í fréttum, hún hefur frá öndverðu verið skoðanamiðill. Hitt var skrýtnara að lesa það undir fyrirsögninni „Þingmenn vilja að öryrki hljóti refsingu og greiði þeim bætur vegna „njósnaaðgerðar““

Það kann að skipta máli hver hleraði þegar menn velta fyrir sér ástæðunni. Hér var í liðinni viku tekið til dæmis um að það gæti breytt afstöðunni til upptökunnar ef hinn þá óþekkti hlerari reyndist vera valinkunnur Pírati, Framsóknarþingmaður eða persónulegur óvildarmað ur (og þurfti raunar ekki að bíða lengi eftir að velunnari síðunnar sendi vísbendingu um að Bára væri vissulega góður Pírati!).

En það skiptir engu í þessu samhengi, þar sem menn vilja fá úrskurðað um ólöglegt athæfi, öldungis óháð því hver í hlut á. Þar skiptir engu að Bára er öryrki (fyrir nú utan hina einkennilegu ætlan Stundarinnar að öryrkjar eigi frekar komast upp með lögbrot en aðrir). Menn kunna að hafa samúð með málstað Báru og finnast verulegar málsbætur í, en ekki á þessum forsendum.

***

Um niðurstöðuna er ekkert gefið. Fyrir liggja ýmis fordæmi, bæði íslensk og erlend, þar sem almenningur hefur þótt hafa svo ríka hagsmuni til vitneskju um það sem leynt átti að fara, að tiltekinn lagabókstafur verði að víkja.

Hér er málið vegna Jónínupóstanna sjálfsagt eftirminnilegast, en efni þeirra þótti varða svo miklu í umræðu dagsins, að einu gilti þó þeir væru þjófstolnir og ekkert lægi fyrir um tengsl fjölmiðilsins og þjófsins jafnvel þó svo að birt hefði verið mun meira úr póstunum en varðaði almenning, sumt ströng einkamál.

En svo er ekkert gefið að menn fari að því fordæmi heldur. Sá dómur var kveðinn upp í ákveðnu andrúmslofti og eftir á að hyggja var hann ekki mjög nákvæmur eða vandaður. Umfram allt sneri hann að aðeins að lögbannskröfu á fjölmiðilinn, sem í hlut átti, en ekki því hvernig póstarnir bárust í hendur hans. Það má telja einstaklega ósennilegt að þjófurinn hefði sloppið jafn vel.

***

Um svipað leyti voru sagðar fréttir af yfirlýsingu Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem kynnti að hann væri farinn í launalaust leyfi til þess að vinna í sínum málum, eftir að hafa hlotið áminningu frá trúnaðarnefnd Samfylkingarinnar vegna óviðeigandi samskipta hans við konu síðastliðið vor.

Þessi yfirlýsing vakti mjög misjafna athygli fjölmiðla, hugsanlega vegna þess að mönnum þóttu misheppnuð og vandræðaleg viðreynsla á fylleríi varla varða einhverja nefnd hjá Samfylkingunni, hvað þá almenning.

Sumir urðu þó til þess að segja þennan misjafna áhuga af pólitískum rótum runninn (á báða bóga). Um það er erfitt að fullyrða nokkuð, en það má hins vegar velta því fyrir sér, svona í ljósi umræðu undanfarinna daga með afsagnarkröfum og fyrirtöku hjá siðanefnd Alþingis, hvers vegna umfjöllunin var svo dræm hjá sumum miðlum, líkt og Stundinni, sem öllu jafna draga ekki af sér í slíkum málum. Hefðu sömu miðlar tekið það gott og gilt í fyrri viku ef Sigmundur Davíð hefði harmað kvöldið á Klaustri, en fullvissað menn um að hér væri ekkert að sjá, þar sem siðanefnd Miðflokksins væri með málið til umfjöllunar?

Málið tók aðra stefnu þegar konan, sem um ræddi, steig fram og andæfði yfirlýsingu Ágústs, hér hefði verið um mun alvarlegra atvik en hann hefði lýst, þó ætlun hennar hefði verið að láta kyrrt liggja. Þá tóku allir fjölmiðlar við sér, enda er konan blaðamaður á Kjarnanum og frásögn hennar í ýmsu staðfest.

***

Vandræðin voru auðvitað hálfu meiri fyrir það að Ágúst var til skamms tíma einn af eigendum Kjarnans, sem gerði stöðu hans gagnvart blaðamanninum flóknari, og á sinn hátt stöðu miðilsins. Það kann að vekja frekari umræðu um eignarhald á fjölmiðlum, en þess má minnast að eignarhald Vilhjálms Þorsteinssonar (fyrrv. gjaldkera Samfylkingarinnar) létti miðlinum ekki lífið, þegar upp komst að hann var að finna í Panamaskjölum.

Erlendis þekkist víða að gerðar séu kröfur um hæfi fjölmiðlaeigenda, þar sem ekki er síður horft til hins siðlega en hins löglega.

***

Í framhaldi af þessu voru svo dregin fram mál fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar, sem sagt er að hafi á sínum tíma verið sakaður um kynferðislega áreitni, án þess þó að neitt yrði úr kærum eða ámóta. Sá fréttaflutningur Viljans og DV var mjög loðinn og óljós, en aðallega vísað í vitneskju eða ónafngreindar heimildir miðlanna, sem og að þriðji miðill hafi haft slíka frétt í vinnslu fyrir allnokkru en hætt við að segja hana.

Slíku er erfitt ef ekki ómögulegt að svara, enda lét viðkomandi það alveg vera. Vandinn er sá að þetta voru varla fréttir, heldur fremur ásakanir eða dylgjur. Það er skiljanlegt að miðlunum hafi þótt frétt í, en þá verða þeir líka að vinna fréttina með hefðbundnum hætti, afla heimilda og fjalla um af viðeigandi nærgætni.

Um örskamma stund sagði DV viðlíka frétt á vef sínum, að þessu sinni um þingmann Framsóknarflokksins, sem borið var að hefði talað ekki minna groddalegar um tiltekna konu og fyrrverandi félagar hans gerðu í Klaustri. Svo hvarf hún bara. Sumir vildu auðvitað rekja það lóðbeint til pólitískra afskipta, þó auðvitað sé allt eins líklegt að fréttin hafi ekki átt sér nægar stoðir, heimildir eða ámóta. En hvernig sem því háttaði átti DV að greina lesendum sínum frá því, sem gerst hafði. Ef heimildir brugðust, þá átti bara að segja frá því. Hafi fréttin reynst röng, þá átti að segja frá því. Og helst biðja viðkomandi afsökunar. En eins og staðan er veit enginn hvort hún er rétt eða röng, sögð eða ósögð. Það gengur ekki.