Framleiðslu Gunnars majóness verður ekki hætt. Nýtt félag sem var stofnað í mars á þessu ári, Gunnars ehf., hefur tekið við rekstrinum. Allir hlutir félagsins eru í eigu Kleópötru Kristbjargar Stefánsdóttur, sem gegndi áður stöðu framkvæmdastjóra Gunnars Majónes hf.

Athygli vekur að dætur Gunnars Jónssonar heitins, Nancy Ragnheiður Jónsson og Helen Gunnarsdóttir Jónsson eiga ekki hlut í hinu nýja félagi og hafa enga aðkomu að því. Hið sama gildir um eftirlifandi eiginkonu Gunnars, Sigríður Regínu Waage, en þær þrjár áttu saman alla hluti í hinu gjaldþrota félagi. Skiptastjóri Gunnars Majóness hf. hefur eins og kom fram fyrr í dag lýst eftir kröfum í þrotabú eins elsta fyrirtækis landsins.

Ný kennitala, sama majónesið

Framkvæmdastjóri nýs félags er Hugrún Sigurjónsdóttir sálfræðingur og leiðsögumaður, en hún tók við starfi Kleópötru í mars síðastliðnum. Hugrún hefur einnig starfað sem blaðamaður á Fréttablaðinu og DV. Kleópatra mun þó gegna stöðu stjórnarformanns Gunnars ehf.

„Það eru kennitöluskipti en að öðru leyti erum við á sama stað og með fullan rekstur," segir Hugrún. „Við erum að vinna að hagræðingu en að öðru leyti er ekki gert ráð fyrir neinum breytingum," bætir hún við. Aðspurð hvort til standi að segja upp starfsfólki segir hún: „Það verður að koma í ljós, við erum ekki komin það langt ennþá. Ef það verður eitthvað af því verður það mjög óverulegt," segir Hugrún.

„Þetta er spennandi verkefni því þetta er eitt elsta og mest spennandi merki landsins. Reksturinn hefur verið mjög erfiður undanfarin ár en þetta er spennandi og krefjandi verkefni," segir Hugrún Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Gunnars ehf.