Utanríkisráðherra Tyrklands, Abdullah Gul, hefur verið tilnefndur sem frambjóðandi Réttlætis- og þróunarflokksins (AKP) í komandi forsetakosningum landsins. Þetta var tilkynnt af forsætisráðherranum Recep Tayyip Erdogan á fundi sem AKP flokkurinn hélt í tyrkneska þinginu í gær.

Sú ákvörðun að útnefna Gul sem forsetaframbjóðanda kom mörgum á óvart, en mikil óvissa hefur ríkt í stjórnmálalífi Tyrklands að undanförnu sökum þess að búist var við því að Erdogan forsætisráðherra myndi láta verða af því að bjóða sig fram til forseta landsins. Hins vegar ákvað Erdogan að láta undan hinum mikla þrýstingi sem hann var beittur af áhrifamiklum mönnum innan tyrkneska stjórnkerfisins - einkum hernaðaryfirvöldum - sem óttuðust að forsetaframboð hans myndi grafa undan veraldlegri stjórnskipan landsins. Tyrkland hefur verið lýðveldi allt frá árinu 1923 og rík hefð er fyrir því að viðhalda arfleifð Mustafa Kemal Atatürk, stofnanda og fyrsta forseta lýðveldisins, að stjórnmál og trúarbrögð skuli vera aðskilin.

Pólitískir andstæðingar Erdogans hafa sagt að íslamskar áherslur hans í stjórnmálum séu of miklar til að hann geti orðið forseti Tyrklands. Um fjögur hundruð þúsund manns söfnuðust saman í miðborg Ankara 15. apríl síðastliðinn til að þrýsta á Erdogan að bjóða sig ekki fram til forseta. "Við viljum ekki klerk sem næsta forseta. Tyrkland er veraldlegt ríki og mun verða veraldlegt ríki," hrópuðu mótmælendurnir. Þrátt fyrir þessar ásakanir hefur Erdogan sýnt fáa tilburði til þess að rjúfa svið veraldlegra og andlegra hluta í valdatíð sinni.

Enda þótt Gul sé meðlimur í sama stjórnmálaflokki og Erdogan telja stjórnmálaskýrendur að forsetaframboð hans verði ekki nærri jafn umdeilt. Gul sótti háskólamenntun sína meðal annars til Englands og er að öllu jöfnu talinn hófsamari stjórnmálamaður heldur en Erdogan. Frá því að Gul tók við embætti sem utanríkisráðherra árið 2003 hefur hann stýrt viðræðum við Evrópusambandið varðandi hugsanlega inngöngu Tyrklands í sambandið.

Tyrkneska þingið mun velja forsetann, en kosið er þangað til að frambjóðandi hefur tryggt sér stuðning tveggja þriðju hluta atkvæða þeirra 550 sem eiga sæti á þinginu. Sökum þess að AKP flokkurinn hefur mikinn meirihluta á þingi - 354 þingmenn - er fastlega búist við að Gul muni taka við af Ahmet Necdet Sezer, núverandi forseta Tyrklands, þann 16. maí næstkomandi þegar hann lætur af embætti.