Elvar er fæddur og uppalinn í Neskaupstað og segist alltaf hafa verið viðloðandi sjávarútvegsgeirann, jafnvel þegar hann var í námi erlendis, en hann var til að mynda á sjó á togurunum Bjarti og Barða í fjögur ár.

„Ég lærði fyrst flugumferðarstjórn í Keili í eitt ár en síðan fór ég í markaðsfræði út í Danmörku,“ segir Elvar. „Þá hafði ég unnið fyrir Síldarvinnsluna í nokkurn tíma svo ég skrifaði lokaverkefnið í starfsnámi hjá fyrirtækinu eftir að ég kom heim, en það snerist um möguleikann á markaðssetningu þurrkaðs kolmuna í Kína.“

Elvar, sem er 28 ára gamall og þriggja barna faðir, er nýbúinn að kaupa sér 180 fermetra einbýlishús í Neskaupstað sem óneitanlega virðist fjarlægur draumur fyrir marga jafnaldra hans í sömu stöðu á höfuðborgarsvæðinu. „Fyrir svipað verð væri hægt að fá um 80 fermetra íbúð í fjölbýlishúsi á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Elvar sem er einmitt á fullu þessa daga að flytja yfir í nýja húsið.

„Svo erum við með ömmurnar og afana alveg í bakgarðinum sem er sérstaklega heppilegt þegar maður er með börn, þó að það hafi líka verið æðislegt að prófa að búa í Árósum. En það er svo margt sem maður finnur ekki að vanti fyrr en það er ekki lengur fyrir hendi.“

Unnusta Elvars er Snædís Hulda Sveinsdóttir og börn þeirra eru fimm og þriggja ára og svo ein sjö mánaða en utan þess að sinna vinnu og fjölskyldu hefur Elvar mjög gaman af því að spila fótbolta og renna sér á snjóbrettum.

„Ég kenndi snjóbretti svona til hliðar í þrjá vetur uppi í Oddskarði, þar sem erum að byrja með þetta starf enda snjóbretti orðið að alvöru ólympíuíþrótt,“ segir Elvar sem stundað hefur íþróttina síðan hann var 12 ára gamall en hún dró hann meðal annars til útlanda um tíma.

„Þegar ég kláraði menntaskólann hérna í Neskaupstað þá flutti ég til Austurríkis til að vinna þar á skíðasvæði. Það var skemmtileg lífsreynsla en maður klessti svolítið á vegg bæði menningarlega og tungumálalega, enda var ég að flytja þá í fyrsta skipti úr foreldrahúsum.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .