Meirihluti Íbúðalánasjóðs hefur samþykkt kauptilboð Almenna leigufélagsins eignarhaldssjóðs í dótturfyrirtæki sitt, Leigufélagið Klett ehf. Félagið var stofnað árið 2013 utan um 450 leiguíbúðir sem voru í eigu sjóðsins.  Almenna leigufélagið er í rekstri GAMMA.

Leigufélagið Klettur ehf. var auglýst til sölu á almennum markaði þann 25. febrúar 2016. Skömmu síðar, þann 2. mars, var haldinn opinn kynningarfundur þar sem félagið og söluferlið, sem skiptist í tvo hluta, var kynnt. Alls bárust átta tilboð í fyrri hluta söluferlisins. Í seinni hlutanum var gefinn kostur á að skila skuldbindandi tilboðum og bárust þrjú slík tilboð í félagið. Það munaði 901 milljón kr. á hæsta og lægsta tilboði.

Tilboð Almenna leigufélagsins hljóðaði uppá 10.101 milljón kr. en söluverðið er 1.541 milljón kr.  hærra en bókfært virði félagsins hjá Íbúðalánasjóði.

Almenna leigufélagið hefur skuldbundið sig til að halda umsaminni leigu núverandi leigutaka óbreyttri í að minnsta kosti 12 mánuði frá samþykkt kauptilboðs. Með kaupunum bætast 450 íbúðir við þær 550 sem Almenna leigufélagið er þegar með í almennri langtímaútleigu.