Leigufélagið Klettur var auglýst til sölu nú í morgun. Klettur er sjálfstætt dótturfyrirtæki í eigu Íbúðalánasjóðs en það er með um 450 íbúðir í útleigu og eitt það stærsta sinnar tegundar á Íslandi.

Virðing bauð lægst þeirra verðbréfafyrirtækja sem sóttust eftir þvi að sjá um sölu Kletts og mun því annast söluna sem mun fara fram í opnu söluferli,

Opinn fundur verður haldinn á Grand Hótel Reykjavík næsta miðvikudag, klukkan 13:30, og í framhaldi af fundinum verða afhent sölugögn.

Frestur til að skila inn óskuldbindandi tilboði er til 4. apríl og í framhaldi af því munu hagstæðustu tilboðin halda áfram og fá aðgang að gagnaherbergi með frekari gögnum. Þeir aðilar þurfa síðan að skila inn skuldbindandi tilboðum fyrir 2. maí.