Eyrún Viktorsdóttir, nýr verkefnastjóri viðskiptaþróunar hjá laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish, segir að sér lítist mjög vel á starfið sem hún tók við nú um áramótin.

„Það má segja að laxeldið sé ákveðinn stríðsvettvangur eins og staðan er í dag og manni var því hent beint út í djúpulaugina. Þetta er mjög krefjandi umhverfi og einmitt það umhverfi sem ég sæki í. Það er einnig skemmtilegt að fara inn á nokkuð karllægan starfsvettvang, og vera ákveðinn brautryðjandi fyrir ungar konur. Fyrstu dagarnir í starfi hafa verið krefjandi og skemmtilegir, og mér líst mjög vel á komandi tíma."

Auk þess að vera menntaður lögfræðingur hefur Eyrún bakgrunn í líffræði. „Áður en ég hóf BA námið mitt í lögfræði þá var ég í grunnnámi í líffræði. Líffræði er eitt af mínum helstu áhugasviðum en ég sá það snemma að minn vettvangur yrði ekki beint að vera eiginlegur vísindamaður, heldur sá ég meira fyrir mér að vera í þessum hagsmunamálum. Því ákvað ég að skipta yfir í lögfræðina. Líffræði bakgrunnurinn nýtist mér mjög vel í nýja starfinu, þar sem það er mikilvægt að hafa þekkingu á þessum líffræðilegu- og umhverfissjónarmiðum til þess að geta skilið lögin og framkvæmd þeirra í þessum málaflokki.

Ég kem úr persónuverndarumhverfinu og  starfaði sem sérfræðingur um nýju persónuverndarlögin. Í því starfi aðstoðaði ég meðal annars sveitarfélög og fyrirtæki við að innleiða nýju persónuverndarlögin. Í gegnum meistaranámið mitt vann ég svo fyrir einn kennarann minn í samkeppnisréttarmálum. Þar fór ég meðal annars yfir allar ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins frá upphafi."

Í frítíma sínum er Eyrún dugleg að ganga fjöll. „Ég er mjög mikill göngugarpur og geng upp á fjöll að minnsta kosti tvisvar sinnum í viku. Ég er meðal annars að taka þátt í stórri áskorun á vegum Ferðafélags Íslands sem felst í því að klífa Hvannadalshnjúk auk fleiri stærri tinda. Auk þess fléttast nokkrar jöklaferðir inn í þessa áskorun. Ég er mjög spennt fyrir þessu verkefni og hlakka til að takast á við þessar áskoranir. Utan vinnu er ég því á fullu við að sinna þessu áhugamáli og lítið annað sem kemst að heldur en fjöllin."

Eyrún segist einnig hafa brennandi áhuga á jafnrétti. „Ég er meðlimur í félaginu Ungar athafnakonur og er virkur þátttakandi í starfi félagsins. Í félaginu er þó nokkur fjöldi af öflugum ungum konum sem eru annaðhvort í háskólanámi eða eru að stíga sín fyrstu skref á atvinnumarkaði. Þetta er mjög skemmtilegur og gefandi félagsskapur."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .