Embætti sérstaks saksóknara hefur ákært þau Lindu Jóhannsdóttur og Björgvin Ragnar Emilsson fyrir meiri háttar brot á skattalögum. Linda og Björgvin Ragnar ráku hárgreiðslustofuna Klipparann sem var til húsa í líkamsræktarstöð World Class í Laugum. Fram kemur í ákærunni að embætti sérstaks saksóknara telur að samtals hafi verið stungið undan skatti  tæpum 27 milljónum króna.

Klipparinn var úrskurðaður gjaldþrota í september árið 2011. Nokkuð er um liðið síðan rekstri hárgreiðslustofunnar var hætt í Laugum.

Í ákæru á hendur þeim Lindu og Björgvin Ragnari segir að þau hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum Klipparans á lögmætum tíma vegna uppgjörstímabilanna mars og apríl árið 2008, til og með nóvember og desember árið 2008 og í nokkur skipti árið 2009. Þá var virðisaukaskattur ekki greiddur fyrir sama tímabil og ekki heldur staðgreiðsla opinberra gjalda.

Ákæra var gefin út í málinu í júlí í sumar. Munnlegur málflutningur verður í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.