Byggingu nýrra höfuðstöðva verktakafyrirtækisins Klæðningar við Íshellu 7 í Hafnarfirði er lokið og flytur fyrirtækið alla starfsemi sína þangað um þessar mundir.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu en þar segir að með tilkomu hinna nýju húsakynna verður öll aðstaða starfsfólks betri, sem mun skila sér í enn betri þjónustu við viðskiptavini fyrirtækisins

Hinar nýju höfuðstöðvar eru við Íshellu 7 í Hafnarfirði, nánar tiltekið í nýju iðnaðarhverfi við Reykjanesbraut á milli Vallahverfis og álversins í Straumsvík.

Húsið er samtals um 1.500 fermetrar að stærð og verða skrifstofur fyrirtækisins þar ásamt tækni- og viðhaldsdeild og þjónustumiðstöð fyrir viðskiptavini og verkkaupa.

„Það er ekki hægt að neita því að við erum full tilhlökkunar að flytja í nýjar höfuðstöðvar okkar. Aðstaða starfsfólks mun verða betri en var þar sem fyrra húsnæði hentaði okkur ekki sem skyldi og þrengsli settu okkur þrengri skorður að hluta til,“ segir Sigþór Ari Sigþórsson, framkvæmdastjóri Klæðningar í tilkynningunni.

„Öll starfsemi verkstæðisins var flutt í apríllok, auk þess sem dótturfyrirtæki Klæðningar, malbikunarfyrirtækið Bergsteinn ehf., flutti starfsemi sína að Íshellu á sama tíma. Við munum hins vegar flytja yfirstjórnina og skrifstofuhaldið búferlum í lok júní.“