Hæstiréttur Íslands sýknaði í dag Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmann og fyrrverandi dómara við réttinn, af kröfum Benedikts Bogasonar, forseta Hæstaréttar, í meiðyrðamáli þess síðarnefnda gegn hinum fyrrnefnda. Dómurinn klofnaði í afstöðu sinni og vildu tveir dómarar fallast á kröfur Benedikts.

Dómurinn var ekki skipaður hinum hefðbundnu dómurum Hæstaréttar enda töldust þeir vanhæfir til starfans í málinu. Þess í stað voru þar tveir lögmenn, tveir héraðsdómarar og einn héraðsdómari sem nú er settur til starfa í Landsrétti.

Í málinu var krafist ómerkingar á fimm ummælum úr bók Jóns Steinars „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“ sem kom út árið 2017. Auk þess krafðist Benedikt tveggja milljóna króna í miskabætur. Ummælin lutu að dómi Hæstaréttar í innherjasvikamáli þáverandi ráðuneytisstjórans Baldurs Guðlaugssonar en Benedikt, þá settur hæstaréttardómari, sat í þeim dómi.

„Ég hika ekki við að segja að á Baldri hafi við meðferð Hæstaréttar verið framið það sem kallað hefur verið dómsmorð“ og „Þessi skilgreining á vel við málið gegn Baldri. Felldur var dómur, sem dómararnir vissu, eða að minnsta kosti hlutu að vita, að stóðst ekki hlutlausa lagaframkvæmd“ voru meðal ummælanna fimm sem krafist var að dæmd yrðu dauð og ómerk.

Beinskeytt og hvöss ummæli

Í dómi Hæstaréttar kom fram að ummælin hefðu verið liður í rökstuddri umfjöllun Jóns Steinars um mikilsvert málefni sem rúmt tjáningarfrelsi gildi um og þótt ummælin hefðu haft á sér býsna sterkt yfirbragð staðhæfinga yrði talið rétt að líta svo á að í þeim öllum hefði falist gildisdómur lögmannsins eða ályktanir sem hann taldi sig hafa getið dregið af atvikum máls og aðstæðum öllu.

Í vörn Jóns Steinars kom meðal annars fram að við mat á inntaki orðsins „dómsmorð“ þyrfti að líta til skilgreiningar þeirrar sem sett var fram í dóminu. Meirihluti réttarins taldi hins vegar að einnig þyrfti að líta til merkingar orðsins í almennu tali. Í ljósi samhengisins yrði að líta á að hugtakið dómsmorð hafi verið notað „í táknfærðri og yfirfærðri merkingu en ekki í bókstaflegri merkingu“ til að tjá þá skoðun sína að réttinum hefði orðið á í messunni.

„Þótt ummælin séu bæði beinskeytt og afar hvöss, samkvæmt orðanna hljóðan og í því samhengi sem þau standa, verður ekki talið að þau séu svo úr hófi fram að þörf sé á því í lýðræðislegu samfélagi, í þágu orðspors annarra eða trausts á dómstólum, að takmarka tjáningarfrelsi [Jóns Steinars] með því að ómerkja þau,“ segir í niðurstöðu meirihlutans.

Rétturinn sagði að færa mætti fyrir því „gild rök“ að engin þörf hefði verið til að taka svo hart til orða. Þótt ummælin kunni að hafa vegið að starfsheiðri Benedikts var ekki fallist á að í þeim fælist hrein mógðun eða gróf persónuleg aðdróttun. Var það meðal annars stutt þeim rökum að ekki yrði séð annað en að ummælin hefði í reynd „haft nokkrar sérstakar afleiðingar í för með sér fyrir [Benedikt] aðrar en óþægindi“.

Staða Jóns hafi gefið orðunum meiri vigt

Minnihlutinn, tveir dómarar, komst að öndverðri niðurstöðu. Sagði minnihlutinn að ummælin yrðu ekki skilin á annan veg en að Benedikt hefði gegn betri vitund kveðið upp rangan dóm og sakfellt saklausan mann.

„Vanfundin er alvarlegri ávirðing í garð dómara. Fela ummælin því í sér grófa aðdróttun í garð [Benedikts] í ljósi stöðu hans. Jafnvel þótt dómarar verði almennt að þola harða gagnrýni vegna stöðu sinnar ganga ummæli af þessu tagi lengra en unnt er að fallast á að [Benedikt] þurfi að þola enda verður ekki séð að þau eigi sér viðhlítandi stoð í atvikum eða staðreyndum máls,“ segir í sératkvæði minnihlutans.

„Við mat á alvarleika ummælanna ber jafnframt að horfa til þess sem áður er fram komið um þær kröfur sem með réttu má gera til [Jóns Steinars] stöðu hans vegna. Hann er starfandi lögmaður með langa reynslu af dómstörfum við Hæstarétt og hefur með umfangsmiklum hætti tekið þátt í umræðu um dómskerfið, bæði á opinberum vettvangi, með ritun bóka og greina, og í háskólakennslu. Verður að leggja til grundvallar að menn í þessari stöðu hafi alla jafna ríkan trúverðugleika í augum almennings og megi því ætla að orð þeirra hafi meiri þunga og séu tekin alvarlegar en ummæli þeirra sem ekki búa yfir sömu reynslu. Þetta gaf [Jóni Steinari] tilefni til að gæta sérstaklega að orðum sínum og framsetningu gagnrýni sinnar,“ segir minnihlutinn sem taldi rétt að dæma öll ummælin fimm dauð og ómerk.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti var felldur niður en slíkt hið sama hafði verið gert í héraði og Landsrétti. Lægri dómstigin tvö höfðu bæði kveðið upp sýknudóm.