Landsréttur felldi í gær úr gildi úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að dómkveðja matsmann í deilu Rolls Royce og þrotabús Wow air hf. Deila málsaðila lýtur að því hvort Rolls Royce njóti sértökuréttar í hreyfilblöðum í vörslu þrotabúsins. Einn dómari Landsréttar skilaði sératkvæði í málinu.

Í september 2018 leigði Rolls Royce þrotabúinu þrjá þotuhreyfla til Wow air en samkvæmt leigusamningi var óheimilt að fjarlægja íhluti úr hreyflunum án þess að aðrir kæmu í staðinn. Wow fjarlægði hins vegar öll þrýstiblöðin úr einum hreyflinum og kom þeim fyrir í hreyflum annarra véla.

Í fyrra seldi Wow hluta véla sinna, meðal annars TF-MOM og TF-KID, til Air Canada en þá voru þrýstiblöð úr hinum leigða hreyfli enn í hreyflum vélanna. Samkvæmt leigusamningnum töldust fjarlægðir íhlutir vega eign leigusala þar til aðrir íhlutir kæmu í stað hinna fjarlægðu. Skömmu fyrir gjaldþrot Wow voru fjarlægð 29 þrýstiblöð úr hreyflum véla sem ætlað var að koma í stað blaðanna sem fjarlægð voru úr leigða hreyflinum en ekki varð úr að þeim yrði komið þar fyrir.

Vildi láta meta erlenda viðskiptavenju

Rolls Royce gerði sértökukröfu í þrotabú Wow og krafðist þess að fá eign sína, þrýstiblöðin 29, afhent. Þeirri kröfu var hafnað af skiptastjórum og hefur deilan um blöðin nú ratað til dómstóla. Að mati Rolls Royce braut Wow gegn skilmálum leigusamningsins með hátterni sínu og þar með hafi eignarréttur félagsins færst yfir á þau þrýstiblöð sem fjarlægð voru úr mömmunni og barninu.

Vélaframleiðandinn fór fram á að dómkvaddur yrði óvilhallur matsmaður til að meta hvort það væri „almenn viðskiptavenja meðal alþjóðlegra leigusala loftfara og flugvélarhreyfla að við útskipti á íhlutum í loftförum og/eða hreyflum vegna viðhalds eða endurnýjunar flytjist umráð og eignarréttur að íhlutum, á því tímamarki þegar skiptin hafa átt sér stað, í samræmi við ákvæði viðkomandi leigusamnings og án þess að yfirfærsla umráðanna og eignarréttarins sé skjalfest sérstaklega, á milli leigusala og leigutaka“.

Þrotabúið lagðist gegn beiðninni og taldi hana bersýnilega tilgangslausa. Þá bæri að leysa úr deilunni samkvæmt íslenskum lögum og gætu viðskiptavenjur, löghelgaðar á erlendri grund, engu breytt um það. Umrædd blöð eru ekki enn í vörslu þrotabúsins og rök hnígi ekki til sértökukröfu um greiðslu skaðabóta þar sem blöðin hafi verið seld með vélunum áður en til þrots kom.

Landsréttur klofnaði

Í úrskurði héraðsdóms sagði að þótt að skiptin færu eftir íslenskum lögum þá gætu erlendar reglur komið til skoðunar við ákvörðun eignarréttinda. Matsbeiðnin væri á ábyrgð Rolls Royce og bæri félagið ábyrgð á því ef matið teldist hafa takmarkað sönnunargildi.

Meirihluti Landsréttar, tveir dómarar, féllst ekki á beiðnina. Sagði dómurinn að almennt væri það ekki á valdi dómstóla að aftra því að mat færi fram nema að það væri bersýnilega óþarft eða um væri að ræða atriði sem dómari myndi sjálfur leggja mat á.

„Þrátt fyrir ríkt svigrúm aðila máls til sönnunarfærslu í þessu tilliti verður ekki litið fram hjá því að með matsspurningunni, eins og hún er orðuð, óskar [Rolls Royce] mats á álitaefni sem er fyrst og fremst lögfræðileg,“ sagði í rökstuðningi meirihlutans. Það myndi falla í hlut dómara en ekki dómkvadds matsmanns að meta það hvort til venjunnar hefði stofnast.

Landsréttardómarinn Jóhannes Sigurðsson skilaði sératkvæði í málinu. Í sératkvæði hans sagði að þótt matsspurningin vísaði „öðrum þræði til þess að við útskipti íhluta yfirfærist umráð og eignarréttur þrýstiblaðanna til leigusala, en það [væri] úrlausnaratriði sem dómari [myndi] á endanum skera úr um í efnisþætti málsins, [kæmi] það ekki í veg fyrir að málsaðili [gæti] fengið tilvist viðskiptavenju staðfesta með matsgerð“. Var í því samhengi vísað til dóms Hæstaréttar í matsbeiðnarmáli Goldman Sachs gegn Kaupþingi frá árinu 2016.

Að endingu var Rolls Royce gert að greiða þrotabúinu 300 þúsund krónur í kærumálskostnað.