Um miðjan mánuðinn, eða 12. desember síðastliðinn ákvað peningastefnunefnd Seðlabankans að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 4,5% , en það virðist sem einn nefndarmaður telji þörf á harðari peningastefnu en hinir fjórir.

Því líkt og gerðist við síðustu vaxtaákvörðun, sem tekin var 7. nóvember síðastliðinn, var einn nefndarmanna óssammála tillögu seðlabankastjóra. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um vildi þá einn nefndarmanna meiri hækkun stýrivaxta en ákvörðun var tekin um, eða 0,5 prósentustig í stað þeirra 0,25 prósentustiga sem Már Guðmundsson seðlabankastjóri lagði þá til.

Nú bar svo við að tillaga bankastjórans og formanns peningastefnunefndarinnar var að halda vöxtunum óbreyttum, en einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn tillögunni og vildi hækka vextina um 0,25 prósentur.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var rétt í þessu, en þar eru nefnd rök í gagnstæðar áttir fyrir því að halda vöxtunum óbreyttum eða hækka þær, en nefndin ræddi einungis þessa tvo möguleika.

„Helstu rökin fyrir því að hafa óbreytta vexti voru þau að lækkun raunvaxta milli funda væri fyrst og fremst tilkomin vegna skammtímaáhrifa gengislækkunarinnar á verðbólgu og skammtímaverðbólguvæntingar. Þótt þróun raunhagkerfisins og verðbólgu hafði í meginatriðum verið eins og gert var ráð fyrir á síðasta fundi og efnahagshorfur hefðu ekki breyst mikið væru verðbólguhorfur líklega hagstæðari en þá var gert ráð fyrir þar sem olíuverð hefði lækkað nokkuð undanfarið. Einnig gætu forsendur verið til staðar fyrir lægri raunvöxtum en ella þar sem hátíðnivísbendingar og væntingakannanir bentu til neikvæðari væntinga og að það gæti dregið hraðar úr eftirspurn en búist var við. Jafnframt var bent á að auknar líkur væru
á að til verkfalla kæmi á nýju ári sem gætu leitt til hraðrar kólnunar í þjóðarbúskapnum,“ segir í fundargerðinni, en þar eru einnig gagnstæð rök tekin fyrir.

„Helstu rökin fyrir því að hækka vexti voru hins vegar þau að þörf var á meiri hækkun vaxta en ákveðin var í nóvember í ljósi aukinnar undirliggjandi verðbólgu og hækkunar verðbólguvæntinga. Þar að auki hefðu raunvextir lækkað á ný og væru nú svipaðir og fyrir vaxtahækkunina í nóvember. Taumhaldið væri því of laust þegar haft er í huga að innlend eftirspurn hefði verið heldur meiri á þriðja ársfjórðungi en spáð var auk þess sem verðbólguvæntingar væru yfir markmiði á alla mælikvarða. Þá var bent á að lækkun raunvaxta að undanförnu á sama tíma og spenna er enn í þjóðarbúskapnum gæti ennfremur verið hluti skýringarinnar á gengislækkun krónunnar.“

Ekki er greint frá því hver hafi talað fyrir stýrivaxtahækkuninni en eftirfarandi nefndarmenn sátu fundinn:

  • Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar
  • Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarseðlabankastjóri
  • Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur
  • Gylfi Zoëga, prófessor, utanaðkomandi nefndarmaður
  • Katrín Ólafsdóttir, lektor, utanaðkomandi nefndarmaður

Þar að auki sátu fjölmargir starfsmenn Seðlabankans hluta fundarins, en Karen Áslaug Vignisdóttir ritaði fundargerð.

Þess má þó geta að einn nefndarmannanna hafði fyrir um ári síðan að því er virðist nokkurn áhuga á að velta fyrir sér hvað Paul Volcker fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna myndi gera , en hann var þekktur fyrir að ná verðbólgu þar í landi niður með 20% stýrivöxtum.