Ummæli stjórnarformanns þýska bílaframleiðandans Volkswagen um helgina hafa afhjúpað klofning meðal æðstu stjórnenda fyrirtækisins, að því er segir í frétt BBC.

Stjórnarformaðurinn, Ferdinand Piech, sagðist í viðtali hafa fjarlægst forstjóra Volkswagen, Martin Winterkorn, en búist hefur verið við því að Winterkorn muni taka við af Piech sem stjórnarformaður.

Piech og Porsche fjölskyldurnar eiga samanlagt 51% hlut í fyrirtækinu og sagði stjórnarmaðurinn Wolfgang Porsche að Piech hafi þarna aðeins verið að lýsa sinni persónulegu skoðun. Þá hafi Piech, sem er frændi Porsche, ekki rætt við fjölskylduna um það sem hann ætlaði að segja í viðtalinu.

Winterkorn er virtur innan bílageirans og er honum þakkaðar breytingar sem hafa gert Volkswagen að einum arðbærasta bílaframleiðanda heims.

Frá því að ummæli Piech komust í hámæli hefur Winterkorn hlotið stuðning ríkisstjórnar Neðra Saxlands, sem á minnihluta í fyrirtækinu, sem og starfsmannafélagi fyrirtækisins.