Stones Invest, sem keypti Keops Development af Landic Property, hefur rift kaupsamningnum. Á sama tíma berast fréttir af því að Stones Invest standi mjög tæpt fjárhagslega og að hugsanlega verði farið fram á gjaldþrotaskipti yfir því.

Stjórnendur Landic Property og danska fjárfestingarfélagsins Stones Invest voru í sambandi um helgina vegna harðra deilna sem upp eru komnar í tengslum við sölu Landic Property á Keops Development til Stones Invest frá í vor.

Stones Invest rifti einhliða kaupsamningnum í lok síðustu viku vegna meintra vanefnda af hálfu Landic Property og gekk raunar skrefinu lengra og fór fram á 250 milljónir danskra króna í skaðabætur, um fjóra milljarða íslenskra króna, vegna trúverðugleikahnekkis og taps á viðskiptavild í kjölfar kaupanna, að því er kom fram í dönskum fjölmiðlum.

Landic Property hefur alfarið hafnað ásökunum Stones Invest og segist hafa uppfyllt öll skilyrði samningsins vegna sölunnar á Keops Development. Á sama tíma berast fréttir af því að Stones Invest, sem er í eigu athafnamannsins Steen Gude, standi mjög tæpt fjárhagslega og hafi ekki staðið skil á greiðslum vegna fasteignakaupa í Vejle.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .