Uppgjör Eimskips á öðrum ársfjórðungi var undir væntingum og verður afkoma ársins eilítið verri en búist var við, að mati greiningardeildar Arion banka.

Eins og VB.is greindi áður frá hefur gengi bréfa Eimskips fallið um tæp 5% eftir birtingu uppgjörsins. Það stendur nú í 238,5 krónum á hlut og er 2,5 krónum undir núverandi verðmati greiningardeildarinnar.

Greiningardeild Arion banka bendir á það í kjölfar birtingar uppgjörs Eimskips að eitt dótturfélaga Eimskips hafi endurbirti veltutölur úr fortíðinni sem leiði til þess að samanburður við spár verður minna marktækur og sé það hið óþægilegasta mál.

„Við, eins og aðrir sem halda utan um rekstrarlíkön fyrir Eimskip, þurftum að klóra okkur nokkra stund í kollinum yfir samanburðartölum félagsins – en þær virkuðu framandi við fyrstu sýn,“ segir deildin og bendir á að á sama tíma og vöxtur var hjá fyrirtækinu í Færeyjum, Noregi og á milli Evrópu og N-Ameríku þá kristalli uppgjörið samdrátt í innflutningi til Íslands. Að því sögðu megi segja að fjölgun skipa sem felur í sér aukna afkastagetu um 7,7% sé í mótsögn við þennan neikvæða raunvöxt tekna, að mati greiningardeildar Arion banka.