Klæðskerafyrirtækið Hartmarx, sem komst í fréttirnar í fyrra fyrir að sérhanna jakkaföt núverandi forseta Bandaríkjanna, Barack Obama hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum en höfuðstöðvar klæðskerans eru í Chicago, heimaborg forsetans.

Hér er þó ekki um að ræða „klæðskerann á horninu“ ef svo má að orði komast heldur er Hartmarx stórfyrirtæki með útibú út um öll Bandaríkin og Kanada.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að þrátt fyrir verulega söluaukningu á síðasta ári, sem aðallega má rekja til upphafs prófkjörs Demókrata þegar Obama fór að ganga sem best, hefur félagið ekki náð að láta enda ná saman og óskar sem fyrr segir eftir gjaldþrotaskiptum. Verslanir félagsins í Kanada eru þó reknar á annarri kennitölu þannig að þær verða áfram starfsræktar.

Obama klæddist jakkafötum frá Hartmarx þann 4. nóvember síðastliðinn þegar hann var kjörinn í embætti og eins fyrir tæpri viku þegar hann sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna.