„Mér finnst þetta meiriháttar mistök,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, um ummæli Unnar Sverrsdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, á föstudaginn. Þar sagði Unnur að tilkynning um hópuppsögn hefði borist stofnuninni sem næði til 35 manns hjá fyrirtæki í fjármálageiranum. Ekki lá fyrir um hvaða fyrirtæki væri að ræða og hafði starfsfólki ekki verið tilkynnt um uppsagnirnar.

„Ég tel að Vinnumálastofnun eigi ekki að vera fremst í flokki með að tilkynna svona, það er eðlilegra að tilkynningin komi frá fyrirtækjunum sjálfum. Ég myndi telja það eðlilega tillitssemi fyrir starfsmennina. Það hefur verið mikill titringur víða vegna þess að fólk vissi ekkert,“ segir Friðbert.

Tilkynning barst frá Borgun fyrr í dag þar sem 29 starfsmönnum var sagt upp hjá fyrirtækinu. Vendingar hafa verið hjá félaginu þar sem nærri 60 nýir starfsmenn hafa verið ráðnir en á sama tíma hefur dregið úr umsvifum á öðrum sviðum fyrirtækisins.