Vegna endurútreiknings á gengistryggðum lánum má að óbreyttu ætla að hagnaður Haga á yfirstandandi rekstrarári aukist um 25%. Ekki var greint frá þessu fyrr en eftir að útboði lauk sem bauð heim hættunni á að mögulega hafi einhverjir starfsmenn Arion banka búið yfir meiri upplýsingum en aðrir fjárfestar.

Fyrir liggur að upplýsingar um endurútreikninga Arion banka á gengistryggðum lánum Haga, sem birtar voru á föstudaginn eftir að útboðinu í Högum lauk, munu hafa mjög mikil áhrif á afkomu fyrirtækisins á yfirstandandi rekstrarári og að óbreyttu mun hagnaður yfirstandandi rekstrarárs Haga aukast um rúman hálfan milljarð króna.

Endurútreikningur á gengistryggðum lánum Haga er tilkominn vegna svokallaðs Mótormax-dóms frá í sumar. Gera má því skóna að þeir sem hugsanlega hafa vitað af lánunum og fyrirsjáanlegum endurútreikningi á þeim (en ekki endilega niðurstöðunni sjálfri) hafi gert sér grein fyrir að hann myndi verða til þess að bæta fjárhagsstöðu Haga. Með því er þó ekki verið að fullyrða að þeir, sem mögulega hafa haft þessa vitneskju, hafi síðan tekið þátt í útboðinu. Arion hefur ekki viljað gefa upp hversu margir starfsmenn bankans tóku þátt í því.

Arion banki hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem meintum aðdróttunum vegna útboðsins er hafnað. Lesa má yfirlýsinguna hér.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.