Þeir viðskiptavinir sem áttu innistæður á Icesave reikningum í Bretlandi og hafa ekki enn náð að endurheimta fé sitt þurfa nú að bregðast hratt við ætli þeir sér ekki að tapa sparifé sínu.

Eins og kunnugt er hafa bresk stjórnvöld ákveðið að greiða til baka allar upphæðir af Icesave reikningum. Viðskiptavinir Icesave þurfa að fylla út þar til gert form og skila til breska fjármálaeftirlitsins. Á vef breska blaðsins The Telegraph kemur fram að þeir viðskiptavinir sem enn hafa ekki sóst eftir því að endurheimta fjármagnið sitt hafi frest til 15. Október.

Reyndar er málið þannig vaxið að viðskiptavinir hafi frest til 30. október en í tilkynningu frá breska fjármálaeftirlitinu sem birst hefur í breskum blöðum er talað um 15. október. Að sögn Telegraph er það til að flýta fyrir afgreiðslu umsókna.

„Viðskiptavinir eru beðnir um að skila inn umsóknum [...] fyrir 15. október þannig að hægt sé að senda þær til afgreiðslu í bankanum á Íslandi áður en lokafresturinn rennur úr þann 30. október 2009,“ stendur í tilkynningunni og tekið er fram að ef umsóknir berast ekki fyrir 30. október sé óvíst hvort viðskiptavinir geti farið fram á endurgreiðslu.

Frá því að Icesave reikningarnir voru frystir fyrir tæpu ári síðan, þann 8. október 2008, hafa um 296.600 viðskiptavinir fengið endurgreitt eftir af breska ríkisstjórnin ákvað að „koma til bjargar þrátt fyrir að Icesave sé ekki bresk fjármálastofnun,“ eins og það er orðað í frétt Telegraph.