Bandaríska verslunarkeðjan Kmart stefnir á lokun 64 verslana í landinu. Kemur þetta til viðbótar við tilkynningu frá móðurfélagi þess, Sears Holding, í apríl síðastliðnum um að fyrirtækið myndi loka 68 búðum í sumar.

Sears Holding varð til árið 2005 þegar Kmart keypti verslunarkeðjuna Sears. Bæði Sears og Kmart hafa átt í vandræðum með minnkandi hagnað í kjölfar aukinnar samkeppni, bæði frá öðrum keðjum sem og frá netverslunum eins og Amazon.

Sala dróst saman um 5,2%

Sears tapaði 395 milljón Bandaríkjadölum, sem jafngildir 45,6 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðingi þessa árs, en á sama tíma í fyrra hagnaðist fyrirtækið um 208 milljon dali.

Salan dróst saman 5,2% í verslunum fyrirtækjanna Sears og Kmart á tímabilinu, sem samt var ekki jafn mikill samdráttur og á ársfjórðungnum þar á undan. Heildartekjur fyrirtækisins fóru niður í 5,7 milljarða dali, úr 6,2 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi síðasta árs.

Macy´s og Walmart loka einnig

Meðal þeirra verslana sem nú loka eru 17 sem eru hluti þeirra 235 sem fyrirtækið seldi á síðasta ári til fyrirtækisins Seritage. Sá samningur fól í sér að Sears Holding myndi halda áfram að leigja verslanirnar frá Seritage, en mætti losna undan leigu þeirra verslana sem ekki skiluðu hagnaði.

Kmart og Sears eru ekki einu hefðbundnu verslunarkeðjurnar í Bandaríkjunum sem eiga í rekstrarvanda. Í síðasta mánuði tilkynnti Macy´s að keðjan myndi loka 100 af sínum 675 verslunum. Sports Authority lokar öllum sínum 460 verslunum eftir gjalþrotameðferð. Einnig tilkynnti Walmart í janúar um að 269 verslunum þess yrði lokað út um allan heim.