„Hættur knattspyrnunnar leynast helst í að verða of íhaldssöm. Það er gríðarleg samkeppni núna alls staðar frá enda framboð á afþreyingu aldrei verið meira. Leikdagur er miklu meira en bara níutíu mínútur inni á vellinum. Það verður að bjóða upp á upplifun fyrir alla, bæði fyrir fjölskyldurnar sem vilja kandífloss, blöðrur og andlitsmálningu og þau sem vilja fá sér smá söngvatn, syngja, tralla og hafa gaman,“ segir Stefán Sveinn Gunnarsson, markaðsstjóri KSÍ. Hingað til hafi það gengið vel og án árekstra milli hópa.

KSÍ þurfi síðan að passa upp á að vera í miklum og góðum samskiptum við grasrótina og félögin, enda eru það félögin sem sjá um að ala upp leikmenn sem keppa á Íslandsmótinu og með landsliðinu. Betri landsliðsmenn þýði meiri tekjur fyrir KSÍ sem síðan skili sér niður til félaganna.

„Stór hluti starfs innan okkar félaga er keyrður áfram af sjálfboðaliðum og satt best að segja öfunda ég ekki framkvæmdastjóra þeirra. Þeir þurfa að sinna fimmtíu mismunandi hlutum á hverjum klukkutíma og eru sífellt að slökkva einhverja elda. Það sem gerist þá oft, því miður, er að markaðsmálin sitji á hakanum,“ segir Stefán.

„Knattspyrnan er að hluta til „show business“ og hreyfingin hefur ekki verið dugleg í að verja peningum í markaðsstarfsemi. Markaðsstarf er ekki peningaeyðsla heldur snýst um að koma auga á tækifæri og að uppfylla þarfir neytandans og gera það með hagnaði,“ segir Stefán.

Litlu hlutirnir skipta hér máli. Lið í efstu deild hafa nýverið tekið upp á því að setja nöfn leikmanna aftan á treyjurnar sem ætti að geta leitt af sér aukna sölu á þeim. Þá hefur umgjörðin í kringum leiki – Stefán nefnir í því samhengi dæmi af „Heimavelli hamingjunnar“ í Víkinni – tekið stakkaskiptum undanfarið.

„Gallinn eða töfrarnir við knattspyrnuna er samt að maður getur gert svo og svo mikið en síðan skiptir kannski öllu máli hvort Gylfi [Þór Sigurðsson] skorar úr aukaspyrnu eða ekki. Þar höfum við litla stjórn á málum. Stórmótin eru sýningarglugginn okkar og við þurfum að halda áfram að komast á þau. Ef við komumst á þau erum við inni í öllu markaðsefni hjá Puma, annars ekki,“ segir Stefán að lokum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .