Þorsteinn Magnússon, formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur, biðlar til íbúa Reykjanesbæjar að styrkja starf félagsins í pistli sem hann skrifar í Víkurfréttum .

Keflavík er á botni Pepsi-deildar karla með einungis fimm stig og þarf margt að ganga upp til að liðið spili ekki í 1. deild að ári. Óskar Þorsteinn eftir aðstoð bæjarbúa til að hjálpa liðinu að halda sæti sínu í efstu deild.

„Á þessu keppnistímabili er á brattann að sækja og því nauðsynlegt að leikmenn, forráðamenn liðsins, stuðningsmenn og íbúar taki höndum saman og hjálpist að við að tryggja veru liðsins í efstu deild,” segir Þorsteinn í pistlinum.

„Knattspyrnudeild Keflavíkur leitar nú eftir stuðningi bæjarbúa.  Til stendur að senda 3.000 kr. valgreiðslu í heimabanka allra íbúa Reykjanesbæjar sem eru 18 ára og eldri.  Það skal tekið skýrt fram að hver og einn velur hvort hann greiðir.”

„Allir sem greiða fyrir 31. ágúst fara sjálfkrafa í pott og verður dreginn út einn ársmiði keppnistímabilið 2016 fyrir hverja 50 sem greiða.”

„Við vonum að sem flestir sjái sér fært að styðja knattspyrnufólkið okkar og taka um leið þátt í starfi deildarinnar.“