Verktakafyrirtækið KNH á Ísafirði átti lægsta boð í gerð nýs vegar um Skálanes á sunnanverðum Vestfjörðum. Tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni í gær. KNH býðst til að leggja veginn fyrir 116 milljónir króna, sem er 68% af kostnaðaráætlun, en hún hljóðar upp á 170 milljónir.

Fimmtán fyrirtæki buðu í verkið sem felst í því að leggja 2,6 kílómetra vegarkafla milli Kollafjarðar og Gufufjarðar. Vegurinn á að vera tilbúinn fyrir 1. nóvember á þessu ári.