Knútur G. Knútsson, annar tveggja forstjóra Samskipa, er á förum frá félaginu og tekur við forstjórastöðunni af Tryggva Jónssyni í Heklu. Jafnframt kemur Knútur inn í eigendahópinn í Heklu. Ráðgert er að greina frá breytingum á yfirstjórn Samskipa á morgun.

Í tilkynningu frá Heklu kemur fram að unnið hafi verið að margvíslegum breytingum á skipulagi og rekstri fyrirtækisins í kjölfar eigendaskipta, sem hafi að markmiði að styrkja innviði fyrirtækisins og auka arðsemi þess. Með breytingum á yfirstjórn sé verið að styrkja forystusveit Heklu.

Knútur G. Hauksson er verkfræðingur að mennt og hefur starfað sem annar tveggja forstjóra Samskipa undanfarin tvö ár og þar áður sem aðstoðarforstjóri í rúm tvö ár. Þar á undan var hann framkvæmdastjóri Olíudreifingar og áður hefur hann unnið m.a. hjá Olíufélaginu, Eimskip, Álafoss og Slippfélaginu. Knútur er kvæntur Sigrúnu Bragadóttur meinatækni og eiga þau þrjú börn.