Knútur Þórhallsson, sem hefur verið meðlimur í skilanefnd Kaupþings frá 9. október 2008, er hættur í skilanefndinni frá og með síðustu mánaðamótum. Ástæðan er þrengri reglur um hæfisskilyrði stjórnarmanna hjá eftirlitsskyldum aðilum, en þau voru þrengd verulega frá og með 1. apríl.

Eftir breytingar á lögunum geta stjórnarmenn eftirlitsskylds aðila meðal annars ekki verið endurskoðendur annars eftirlitsskylds aðila. Knútur er endurskoðandi hjá Deloitte og hefur með höndum endurskoðun fjölmargra aðila sem lúta opinberu eftirliti Fjármálaeftirlitsins (FME). Hann gat því ekki setið áfram í skilanefndinni og sinnt þeim endurskoðunarverkefnum.