Bankar knúðu stjórnendur Össurar hf., þar á meðal Jón Sigurðsson forstjóra, til þess að selja um 6% af heildarhlutafé félagsins í mars í fyrra eftir að gengisbundin lán, sem tekin voru til þess að kaupa hluta bréfanna, hækkuðu skarplega við fall krónunnar.

Frá þeim tíma hefur allt legið upp á við hjá félaginu. Gengi bréfa hefur næstum tvöfaldast og erlendir greinendur og fjárfestar sýna félaginu sífellt meiri áhuga. Þá eru rekstrarhorfur félagsins taldar bjartar, samkvæmt upplýsingum frá félaginu sjálfu og erlendum greinendum.

Þegar bréfin voru seld til danska fjárfestingarfélagsins William Demant Invest var gengið 88 sem þá var um 9% undir markaðsverði. Gengi bréfanna er nú 166 á íslenska markaðnum en um 7 danskar krónur á hlut í dönsku kauphöllinni.

Greinandi norræna bankans SEB Enskilda, Niels Granholm, gerir ráð fyrir enn meiri hækkunum á virði félagsins og hefur sagt að gengið 8,2 sé raunhæft verð. Það þýðir um 15% hækkun til viðbótar.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .