Samtök sem studd eru af Koch Industries Inc. munu leggja sig fram til þess að berjast gegn innflutningssköttum sem Repúblikanar hafa boðað. Þetta kemur fram á fréttaveitu Bloomberg.

Kochbræðurnir hafa í gegnum tíðina stutt Repúblikana, en í þetta sinn munu þeir berjast gegn öllum tillögum sem þeir telja vera íþyngjandi fyrir neytendur og innflutningsfyrirtæki.

Samtökin kallast Americans for Prosperity og eru starfandi í ríflega 36 fylkjum í Bandaríkjunum. Samkvæmt talsmanni samtakanna eru tollamúrar fráleiddir, íþyngjandi og óamerískir.

Stuðningsmenn innflutningsskatta hafa þó reynt að beita þeim rökum, að hugsanlegur skattur geti örvað innlenda framleiðslu.