Eastman Kodak, fyrrum þungavigtarkappinn í myndavéla- og filmubransanum hefur nú ákveðið að stökkva á rafmyntavagninn með því að gefa út rafmynt í eigin nafni. Rafmyntin sem ber nafnið Kodakcoin er ætlað að aðstoða ljósmyndara og umboðsmenn þeirra að ná betri yfirsýn yfir höfundarréttindi á myndum.

Hlutabréfaverð fyrirtækisins skaust upp í kjölfarið og fór úr rúmlega þremur dollurum á hlut upp í 12,15 dali á hlut en síðan hefur verð bréfanna þó aftur lækkað eitthvað eða niður í um 8,7 dali á hlut.

Kodak hefur átt undir högg að sækja á umliðnum árum og varð gjaldþrota árið 2013 en reis upp að nýju eftir að hafa selt flest öll einkaleyfi sína m.a. til Apple og Microsoft. Áhersla þess síðan hefur verið á stafræna myndatöku, prentun og útleigu á sérleyfum.