Greiðslustöðvun ljósmyndafyrirtækisins Kodak lauk í gær. Fyrirtækið heltist úr lestinni í harðri samkeppni á markaði með stafrænar myndavélar og óskaði eftir greiðslustöðvun í byrjun síðasta árs. Fyrirtækið sem rís upp úr öskustónni mun sérhæfa sig í prentun, að því er Reuters-fréttastofan hefur eftir Anotnio Peres, forstjóra Kodak.

Kodak var með þekktustu og elstu fyrirtækjum í ljósmyndageiranum á árum áður. Það var stofnað árið 1880 og framleiddi m.a. myndavélar og filmur. Í janúar síðastliðnum fór það í þrot og námu kröfur í búið 6,75 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 800 milljarða króna. Perez segir í samtali við Reuters að gert sé ráð fyrir að tekjur Kodak á þessu ári muni nema um 2,5 milljörðum dala.