Bandaríski myndavélarisinn Eastman Kodak hefur óskað eftir því að fá að fara í greiðslustöðvun. Þetta kom fram í yfirlýsingu frá fyrirtækinu sem send var út í morgun.

Á fréttasíðu BBC er haft eftir forstjóra fyrirtækisins, Antonio Perez, að ákveðið hafi verið að fara þessa leið eftir vandlega íhugun, en þetta hafi verið nauðsynlegt skref fyrir framtíð Kodak.

Fyrirtækið, sem var fyrst til að selja léttar og handhægar myndavélar, hefur átt í vök að verjast síðan stafrænar myndavélar komu til sögunnar skömmu fyrir aldamótin 2000.