Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Kóði, sem meðal annars sér um fjármálavefinn Kelduna , hefur nú gert samning um samstarf við íslenskt sprotafyrirtæki að nafni CrankWheel.

Stofnendur CrankWheel heita Jóhann Tómas Sigurðsson og Þorgils Sigvaldason. Íslenski sprotinn sérhæfir sig í að gera sölufólki og þjónustuaðilum fyrirtækja kleift að færa viðskiptavinum sínum myndrænar upplýsingar í rauntíma.

Hugbúnaðurinn á bak við CrankWheel er slíkur að hann virkar á flestum vöfrum og raftækjum, svo viðskiptavinurinn þarf aldrei að sækja sér neinn aukalegan hugbúnað.

Kóði, sem kynnir sig undir nafninu Live Market Data í útlöndum, hyggst nota hugbúnað CrankWheel í aukið sölu- og markaðsstarf í Norðurlöndunum.