Hugbúnaðarfyrirtækið Kóði festi nýverið kaup á öllu hlutafé í Keldunni ehf. Keldan rekur meðal annars samnefndan vef sem er sérsniðin upplýsingaveita fyrir íslenskt fjármála- og viðskiptalíf. Einnig rekur Keldan Vaktarann.is sem býður upp á net og fjölmiðlavakt til að fylgjast með og greina fréttir og umræðu. Vaktarinn var keyptur af Clöru sumarið 2012.

Mikil samlegðaráhrif
Thor Thors, framkvæmdastjóri Kóða, segir fyrirtækið geta minnkað kostnað með samruna þessara tveggja fyrirtækja. „Við sjáum mikil samlegðaráhrif í yfirbyggingu og við höfum verið að kaupa öll þessi gögn sem eru á Keldunni. Þess vegna getum við dregið mikið úr kostnaði,“ segir Thor sem telur Kóða einnig geta bætt þjónustu Keldunnar eftir því sem á líður. „Hjá Kóða eru fleiri forritarar og auðveldara fyrir okkur að bæta við þjónustuna og styðja við þetta. Svo er hugmyndin að dýpka vefinn með gögnum sem við erum með og bjóða þegar fram líða stundir rauntímaaðgang í gegnum vefinn og á spjaldtölvum,“ segir Thor í samtali við Viðskiptablaðið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .