Ekkert varð af sölu General Motors á sænska bílaframleiðandanum Saab að því er greint er frá í The Detroit News. Er jafnvel talið að þessi tíðindi kunni að marka endalok Saab í bílaframleiðslu.

Sportbílaframleiðandinn Koeningsegg Group AB hafði gert tilboð í Saab og er haft eftir forstjóranum Augie K. Fabella II að tíminn hafi einfaldlega verið runnin út, en búið hafi verið að fjármagna dæmið.

Hluti af dæminu varðandi kaup Koeningsegg á Saab var að kínverski bílaframleiðandinn Beijing Automotive Industry Corp. (BAIC) hugðist koma að málinu með kaupum á litlum hlut í Koeningsegg.

Salan á Saab átti að vera hluti af endurskipulagningu GM sem virðist ganga heldur brösuglega þessa dagana. Þannig hætti GM við að selja Rússum Opel í Þýskalandi og vill þess í stað fá góða aðstoð frá Evrópusambandinu við endurreisn Opel. Þar á bæ mun þó vera lítil hrifning á slíkum óskum, en Opel mun segja upp 9.500 starfsmönnum.