Undir lok árs 2005 festi Kögun hf. kaup á öllu hlutafé í Hands ASA í Noregi. Kaupverðið nam 1.736 milljónum króna og var greitt með handbæru fé. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Hands ASA varð hluti af samstæðu Kögunar 1. desember 2005.

Kögun hf. náði samkomulagi við meirihluta eigenda hlutafjár í norska fyrirtækinu Hands ASA í byrjun nóvember um kaup á þeirra hlutum. Í kjölfar þess að Kögun hf. náði yfir 90% atkvæða í byrjun desember var ákveðið að afskrá félagið úr kauphöllinni í Osló og var það gert frá og með 1. febrúar 2006.

Hands ASA var upphaflega hluti af norska stórfyrirtækinu Merkantil Data AS og var var starfsemi að hluta skipt út frá móðurfélaginu með skráningu í norsku kauphöllina árið 2000 undir nafninu Hands ASA. Á næstu árum stækkaði fyrirtækið mikið og tók Hands ASA yfir nokkur minni hugbúnaðarfyrirtæki í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi sem rekin voru undir nafni Hands ASA og voru yfir 800 starfsmenn hjá fyrirtækinu þegar flest var. Á árunum 2002 og 2003 höfðu öll þessi fyrirtæki hinsvegar verið seld og var það því starfsemi Hands í Noregi sem Kögun hf. keypti.

Rekstur Hands ASA á árinu hefur farið stigbatnandi og binda stjórnendur Kögunar hf. vonir við að ná enn frekari árangri á komandi árum að því er kemur fram í tilkynningu sem send var út vegna kaupanna. Á árinu eignaðist Hands ASA fyrirtækin Completo AS sem sérhæfir sig í lögfræðilausnum í Axapta og Nett23 AS sem hefur sérhæft sig í lausnum fyrir flutningageirann ásamt hýsingu og rekstri tölvukerfa fyrir viðskiptavini sína. Rekstur Hands ASA kom að fullu inn í samstæðu Kögunar hf. frá og með 1. desember 2005.