Kögun hf. og dótturfélag þess, Landsteinar Strengur hf., hafa keypt þriðjungshlut í lettneska fyrirtækinu Aston Baltic SIA í Riga í Lettlandi af Nordic Technologies Ltd. og eiga þar með allt hlutafé í fyrirtækinu.

Aston Baltic SIA sérhæfir sig í sölu og innleiðingu á Axapta hugbúnaði frá Microsoft auk endursölu á ýmsum viðskiptalausnum á sviði verslunar-, vöruhúsa- og vörustjórnunar.

"Markmiðið með kaupunum er að nýta þá fótfestu sem Aston Baltic SIA hefur nú þegar á lettneska markaðinum til aukinna umsvifa í Eystrasaltslöndunum auk þess að markaðssetja hugbúnaðarlausnir frá dótturfélögum Kögunar hf. Á næstunni verður jafnframt skoðuð hagkvæmni þess að fela Aston Baltic SIA að annast ákveðna þætti hugbúnaðarþróunar fyrir fyrirtækin innan samstæðu Kögunar hf.," segir í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar.