Kögun hf. hefur gengið frá kaupum á hugbúnaðarfyrirtækinu Specialists in Custom Software Inc. (SCS) í Kaliforníu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kögun.

SCS er eitt stærsta hugbúnaðarfyrirtæki á sviði Microsoft Dynamics NAV/Axapta (áður Microsoft Business Solutions Navision og Axapta) í Bandaríkjunum. Kaupin fara fram í gegnum dóttufélag Kögunar, Kögun USA, Inc.

Ásamt talsverðri samlegð og mikilli reynslu starfsmanna fylgja með í kaupunum mikilvæg viðskiptasambönd SCS, segir í tilkynningunni.

Í kjölfar kaupanna er Kögun eitt af fimm stærstu samstarfsaðilum Microsoft Dynamics á heimsvísu og hefur stefnan verið sett enn hærra á þeim lista.

SCS var stofnað fyrir 26 árum af Helen Russell og hefur fyrirtækið átt velgengni að fagna bæði í vexti og afkomu. SCS rekur skrifstofur í Menlo Park í Silicon Valley og í Santa Monica í Kaliforníu.

Viðskiptavini SCS er að finna bæði á heimavelli félagsins í Kaliforníu og á fleiri stöðum í Bandaríkjunum og Evrópu og eru á meðal þeirra nokkur stærstu nöfnin í afþreyingariðnaðinum í Kaliforníu.

Framkvæmdastjóri SCS, Helen Russell, mun starfa áfram með félaginu. Hún er fyrrum formaður samtaka hugbúnaðarfyrirtækja í Kaliforníu og hefur setið í stjórn samtakanna síðastliðin 10 ár.

Velta SCS á árinu 2005 nam um 500 milljónum króna og EBITDA hlutfall var um 20%. Kaupverð á SCS er trúnaðarmál á milli seljenda og kaupanda en kaupin eru fjármögnuð með lausafjármunum Kögunar," segir í tilkynningu Kögunar.