Bandaríski flotinn hefur, að undangengnu útboði, tekið tilboði Kögunar hf. í rekstur fjarskiptastöðvar flotans í Grindavík segir í fréttatilkynningu fyrirtækisins.

"Útboðið sem fram fór fyrr í sumar er hluti af þeirri endurskipulagningu sem átt hefur sér stað í tengslum við brotthvarf Varnarliðsins. Tímasetningin er góð í ljósi breytinga á starfsemi Kögunar á Keflavíkurflugvelli en þarna tekst okkur að skapa áframhaldandi störf fyrir hluta þeirra starfsmanna sem sinnt hafa þjónustu við Varnarliðið á okkar vegum" segir Bjarni Birgisson hjá Kögun hf. í tilkynningu fyrirtækisins.

Fjarskiptastöð flotans í Grindavík hefur verið rekin af flotanum frá því á sjöunda áratug síðustu aldar og verið mönnuð bandarískum hermönnum að langmestum hluta. Það varð hinsvegar ljóst fyrr í sumar að þessi stöð yrði rekin áfram hér á landi og var því reksturinn boðinn út. Fjarskiptastöðin í Grindavík er hluti af víðfeðmu neti samskonar stöðva sem saman mynda fjarskiptanet flotans og annast m.a. lágtíðnisamskipti við skip og kafbáta á hafi úti.

Kögun hf. hefur annast rekstur og viðhald íslenska loftvarnarkerfisins allt frá árinu 1997 þegar kerfið var formlega tekið í notkun. Fyrir þann tíma höfðu starfsmenn Kögunar unnið í Bandaríkjunum og á Íslandi við þróun og smíði kerfisins allt frá árinu 1989 en samtals hafa farið yfir 500 mannár í smíði kerfisins. ?Það er þessi áralanga reynsla og þekking á hönnun og rekstri hernaðarlegra fjarskipta- og upplýsingakerfa sem er lykilatriði í vali bandaríska flotans á þjónustuaðila í þessu útboði" segir Bjarni. Samningurinn er gerður til eins árs í senn innan rammaútboðs sem spannar fimm ára tímabil.

Kögun hf. er dótturfélag Dagsbrúnar hf. (DB) sem er skráð í Kauphöll Íslands. Dagsbrún hf er eignarhalds- og fjárfestingafélag á sviði fjarskipta, fjölmiðlunar, afþreyingar, upplýsingatækni og tengdra greina.