Kögun hefur greint frá því að skrifað hafi verið undir samning um kaup á bandarísku hugbúnaðarfyrirtæki. Samningurinn er með fyrirvara um áreiðanleikakönnun en gert er ráð fyrir að ganga frá endanlegum samningum í lok desember. Kaupverð á fyrirtækinu er trúnaðarmál segir í tilkynningu Kögunar en velta fyrirtækisins á árinu 2005 er áætluð um 500 milljónir íslenskra króna og EBIDTA hlutfall um 20%.

Fyrirtækið var stofnað árið 1979 og hefur verið rekið með hagnaði frá upphafi. Gert er ráð fyrir að fyrirtækið komi inn í samstæðu Kögunar hf. frá og með næstu áramótum. Nánar verður skýrt frá starfsemi félagsins þegar áreiðanleikakönnun hefur farið fram.

Kaup þessi eru í samræmi við yfirlýsta stefnu Kögunar hf. um að stækka enn frekar á sviði viðskiptalausna en Kögun á nú þegar tæp 90% í Hands ASA og er gert ráð fyrir að Hands komi inn í samstæðu Kögunar hf. frá og með næstu áramótum. Önnur fyrirtæki í samstæðunni sem bjóða lausnir á þessu sviði eru Ax hugbúnaðarhús hf., Hugur hf., Landsteinar Strengur hf., Aston Baltic SIA og Skýrr hf.

Uppgjör mun verða með reiðufé og verða kaupin fjármögnuð af Kögun hf. með lausafjármunum.