Kögun, dótturfélag Teymis, hefur keypt ráðgjafar- og hugbúnaðarhúsið Innn af afþreyingar- og fjölmiðlafyrirtækinu 365, sem keypti fyrirtækið í mars á þessu ári og hyggst sameina það Eskli, hugbúnaðarfyrirtæki sem Kögun hefur átt í um ár. Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Kaupverð fæst ekki uppgefið en að sögn forstjóra 365 greiðir Kögun hluta kaupverðsins með hlutabréfum í 365, sem borgaði þá 221 milljón fyrir félagið að markaðsvirði með því að gefa út nýtt hlutafé. Miðað við gengið í gær er markaðsvirði hlutarins 172 milljónir króna. Þessi gjörningur er ekki enn genginn í gegn.


"Þarna verður til stærsta fyrirtæki landsins á sviði veflausna sem byggja á Microsoft tækni," segir Bjarni Birgisson, forstjóri Kögunar, um kaupin í samtali við Viðskiptablaðið í dag. "Við vorum að leita eftir tækifærum til að stækka Eskil til að veita betri þjónustu og ráða við þau verkefni sem voru á borðinu," segir hann. "Það eru mjög útbreiddar og þekktar vörur hjá Innn," segir Bjarni og nefnir meðal annars vefumsjónarkerfið LiSA.


"Það hentaði Innn betur að komast í þetta umhverfi og það var hagfellt fyrir okkur að selja," segir Ari Edwald, forstjóri 365, um söluna á félaginu í samtali við Viðskiptablaðið. Hann telur það hluta af ábyrgð hluthafa að taka ákvarðanir sem nýtast félögum, Innn í þessu tilfelli, í áframhaldandi þróun og þroska. "Úr verður öflugasta félagið í þessum bransa á Íslandi," segir Ari við Viðskiptablaðið.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.